FÍH 90 ára!

Kæru félagsmenn,

Í dag er merkisdagur í sögu Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH var stofnað 28.febrúar 1932 og er því hvorki meira né minna en 90 ára í dag!

Ykkur undrar kannski af hverju hefur ekki farið meira fyrir afmælinu í aðdragandanum, skýringin er að fyrir nokkrum vikum sáum við að Covidfárið yrði ekki gengið niður og ákváðum að fyrirhuguð afmælissamkoma yrði færð til föstudagsins 25. mars . Já, við ætlum að halda góða veislu með veislumat og hljóðfæraslætti milli kl 16 og 19, ykkur er öllum boðið ásamt mökum og heiðursgestur okkar verður Lilja D. Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra.

Í dag viljum við opinbera nýja gerð af merki félagsins, við létum endurhanna það, einfalda og með því að gera merkið notkunarvænna á rafrænum miðlum. Hér fyrir neðan sjáið þið afmælisútgáfuna og svo þá útfærslu sem notuð verður í framhaldinu. Einnig verður nýja merkið notað utan á okkar góðu húsakynni í Rauðagerðinu.

Fljótlega sendum við ykkur formlegt boðskort á fagnaðinn í næsta mánuði en þegar þið bítið í bollurnar í dag, hugsið þá hlýlega til félagsins ykkar, þið eruð félagið!

Bestu kveðjur,

Stjórn og starfsmenn FíH