Áríðandi! – atvinnuleysisbætur og hlutabætur

Kæri félagsmaður,

 

Verktakar í okkar röðum eru augljóslega að verða fyrir miklum fjárhagslegum skelli út af Covid19 veirufaraldrinum. Vonandi tekur þetta af tiltölulega fljótt og vonandi halda þau atvinnutækifæri sem til var stofnað, þótt síðar verði.

 

Í bili er spurningin hvað sé að gera fyrir þá sem eru að tapa? Menn tala um úrræði stjórnvalda, kannski verða þau en úrlausnarefnið er flókið því verktakar hérlendis teljast í þúsundum í allskonar vinnusamhengi.

 

Augljósa leiðin til að ganga strax er að sækja um atvinnuleysisbætur. Þeir sem greitt hafa reiknað endurgjald af verktakatekjum eiga rétt til bóta og nú er hægt að sækja um hlutabætur, eftir breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þær eiga við þegar verktakatekjurnar eru einhver hluti tekna. (Aðrar tekjur gætu t.d. verið launþegavinna í kennslu)

 

Fyrr í vikunni sendi FÍH út leiðbeiningar varðandi að sækja um atvinnuleysisbætur en hvað eru  hlutabætur: I sem skemmstu máli þýðir það að hægt er að njóta atvinnuleysisbóta þó að ekki falli allar tekjur niður. Ef vinna skapast tiltekinn dag og einn tónlistarviðburður er haldinn þó aðrir falli niður þá er sá dagur einfaldlega felldur út úr talningunni á atvinnuleysisdögum þann mánuðinn. (Athugið að reiknaða endurgjaldið er líka vísbending um hvað séu tekjur á hverjum degi)

 

Fullnægjandi verður að tilkynna um verulegan samdrátt á rekstri til Skattsins í stað þess að þurfa að loka rekstri. Skila þarf inn afriti af eyðublaði RSK 5.02 til Vinnumálastofnunnar.

 

Hér er dæmi þar sem hlutabætur gætu átt við: X starfar sem tónlistarkennari og einnig sem tónlistarflytjandi. Launin eru 50% kennsla (launþegi) og 50% tónlistarflutningur (verktaki). Við aðstæður eins og núna fellur verktakavinnan niður að miklu eða öllu leyti. X er þá heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur vegna tekjumissisins í verktakavinnunni

 

Spurningar:

 

  • Hverjir geta sótt um? – Þeir sem eru alfarið verktakar og líka þeir sem eru verktakar að hluta

 

  • Hvað fæ ég? – Til grundvallar liggur hvað umsækjandi  hefur reiknað sér í endurgjald þ.e. af hvaða mánaðarlegu tekjum hefur verið greitt af á síðastliðnum 12 mánuðum á undan. Miðað er við tekjur sem greitt var tryggingargjald af. Gögn um tekjurnar þarf alltaf að hafa á reiðum höndum við umsókn. Vinnumálastofnun aflar upplýsinga beint úr staðgreiðsluskrá Skattsins en þarf í sumum tilfellum að fá frekari upplýsingar en koma þar fram.

 

  • Hvað ef ég hef einhverja vinnu? – Hafi viðkomandi tekjur einhverja daga reiknast viðkomandi dagar utan atvinnuleysisbótanna og þarf að tilkynna um þá vinnu í gegnum “Mínar síður” Vinnumálastofnunnar

 

  • Hvað ef ég er með félag um rekstur minn? – Þeir sem eru með rekstur sinn á einkahlutafélagsformi (ehf) þurfa að skrá sig tímabundið af launþegaskrá til að geta sótt um atvinnuleysisbætur
  • Hvenær fæ ég bæturnar? – Afgreiðslutími umsóknar getur verið milli 4-6 vikur en greiðsla er tryggð ef viðkomandi hefur áskilin réttindi

 

Við ítrekum að mikilvægt er að sækja um strax því hver dagur telur, ef t.d. dagurinn í dag er ekki með í talningunni eru ekki greiddar bætur fyrir hann!

 

 

Allar frekari upplýsingar fást síðan hjá Vinnumálastofnun

 

Hér er sótt um: https://www.vinnumalastofnun.is/umsoknir/atvinnuleysisbaetur

 

 

 

 

 

Ítarefni og nánari skýringar:

 

Hér hægt að lesa meira um bæturnar (glærur 27 og 28 skipta máli): https://www.vinnumalastofnun.is/atvinnuleitandi/rettindi-og-skyldur/hvad-tharftu-ad-vita

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar (54/2006) og lögum um Ábyrgðasjóð launa (88/2003) (minnkað starfshlutfall)