Páll Helgason, tónlistarmaður og kórstjóri er látinn

Páll Helgason, tónlistarmaður og kórstjóri, lést laugardaginn 5. mars, á sjötugasta og öðru aldursári. Páll var fæddur á Akureyri 23. október 1944.
Foreldrar hans voru Helgi Pálsson, kaupmaður og bæjarfulltrúi, f. á Akureyri 14. ágúst 1896, d. 19. ágúst 1964, og Kristín Pétursdóttir húsmóðir, f. 8. janúar 1900 á Tjörn í Vindhælishreppi í Austur-Húnavatnssýslu, d. 5. desember 1989.
Páll spilaði á gítar og bassa m.a. með hljómsveit Ingimars Eydal á hótel KEA. Páll stundaði síðar nám við Tónlistarskóla Mosfellshrepps undir stjórn Ólafs Vignis Albertssonar og lauk þaðan 8. stigi í tónfræðum. Hann kenndi ennfremur tónlist við Klébergsskóla og Ásgarðsskóla um árabil.
Páll Helgason var valinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012.

Páll var afkastamikill í tónlistarlífi landsins, þó mest í Mosfellsbæ, með þekktum útsetningum fyrir kóra og kom að stofnun fjölda kóra. Þar má nefna Álafosskórinn, Mosfellskórinn, Vorboða – kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Landsvirkjunarkórinn og Karlakór Kjalnesinga auk endurvakningu kóra svo sem eins og Karlakórinn Svanir á Akranesi og Karlakór Stefnis í Mosfellsbæ. Einnig kom hann að fleiri kórum s.s. stjórnandi Strætókórsins áður en hann veiktist. Blómlegt söngstarf þrífst í öllum þessum kórum í dag.
Páll söng í Karlakórnum Stefni undir stjórn Lárusar heitins Sveinssonar um nokkra hríð. Þá var hann organisti í Brautarholtskirkju, Saurbæjarkirkju og Reynivallakirkju. Páll var félagi í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar.
Eftirlifandi eiginkona Páls er Bjarney S. Einarsdóttir og eiga þau þrjú uppkomin börn.