Freyja Gunnlaugsdóttir í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1

„Tónlistarskólarnir eru mjög illa staddir“

 

Aðstandendur tónlistarskólanna vonast til þess að samkomulag ríkis og sveitarfélaga um rekstur þeirra feli í sér raunverulega lausn. Freyja Gunnlaugsdóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að samkomulagið sem gert hafi verið 2011 hafi nánast orðið tónlistarskólunum að falli. Tónlistarskólarnir hafi orðið leiksoppar í deilu ríkis og borgar. „Þeir standa í rauninni mjög illa og eru varla starfhæfir áfram nema eitthvað gerist“
Freyja Gunnlaugsdóttir - Portraits - 3.4.2012 Photogr. Rut Sigurðardóttir
 

Tónlistarskólarnir hafa á undanförnum árum barist í bökkum og orðið að mæta kennslukostnaði með skólagjöldum, en samkvæmt lögum er þeim aðeins ætlað að standa undir almennum rekstrarkostnaði.  Um mitt síðasta ár voru tónlistarskólarnir í Reykjavík á framhaldsstigi nánast gjaldþrota, þar sem borgaryfirvöld litu svo á að þau gætu valið að styðja eingöngu við tónlistarnám á grunn- og miðstigi. Ríkið ætti að sjá um afganginn. Í síðasta mánuði var und­ir­ritað nýtt sam­komu­lag milli ríkis og sveitarfélaga  um stuðning við tón­list­ar­nám og jöfn­un á aðstöðumun nemenda til tón­listar­náms.  Jafnframt var greint frá því að mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið vinni að því að setja á lagg­ir list­fram­halds­skóla sem sérhæfði sig í tónlist, og að miðað væri við að skólastarf hefj­ist næsta haust. Freyja Gunnlaugsdóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, lýsti á Morgunvaktinni aðstæðum tónlistarskólanna og framtíðarhorfum. Hún sagðist vonast til að nýja samkomulagið feli í sér lausn á vanda skólanna, sem eiga að fá verulega aukin framlög. „Það lítur út fyrir að framlag ríkisins gegnum Jöfnunarsjóð haldist óbreytt og dreifist um allt land til framhaldsnemenda. Í samkomulaginu felst líka að komið verði á fót framhaldsskóla sem sérhæfi sig í tónlist, sem er spennandi hugmynd og gæti orðið mikið framfaraskref í tónlistarmenntun á Íslandi. Mögulegt væri að stofna skóla sem væri samkeppnishæfur í alþjóðlegu samhengi og ætti að hafa það að meginmarkmiði að undirbúa fólk fyrir háskólanám í tónlist“. En samkomulag ríkis og sveitarfélaga eitt og sér leysir ekki vanda tónlistarskólanna. „Það er gríðarlega mikilvægt núna að koma tónlistarskólunum á réttan kjöl og það hefur ekki ennþá gerst“. Björgunarpakkinn sem mikið var rætt um í vetur hafi ekki nýst umræddum skólum til leiðréttingar á fjárhagsstöðunni vegna strangra skilyrða sem borgin setti fyrir úthlutun fjárins. Neikvæð umræða og baráttan um að halda skólunum á lífi hafi sannarlega sett svip sinn á skólastarfið, þó reynt sé af fremsta megni að láta ekki þessar deildur koma niður á nemendum. „Skólarnir voru byggðir upp af hugsjónum, af fólki sem gerði sér grein fyrir að til þess að byggja upp sterkt samfélag þurfi sterkt menningarlíf“, segir Freyja og bætir við: „Mér finnst tímabært að stjórnvöld og borgaryfirvöld geri sér grein fyrir þeim verðmætum sem felast í menningarlífinu og íslenskri tónlist“.