MÍT – Menntaskóli í tónlist

MÍT – MENNTASKÓLI Í TÓNLIST er nýr framhaldsskóli stofnaður af Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónlistarskóla FÍH. Skólinn tekur til starfa haustið 2017. Boðið er upp á nám í bæði rytmískri tónlist (jazz, popp og rokktónlist) og klassískri tónlist.

Skólinn býður upp á NÝJAR OG ÁHUGAVERÐAR NÁMSLEIÐIR Í TÓNLIST og geta nemendur lokið stúdentsprófi með tónlist sem aðalnámsgrein. Skólinn hentar þó einnig vel nemendum sem stunda nám við aðra framhaldsskóla en vilja stunda áhugavert tónlistarnám á framhaldsstigi.

NÁMSFRAMBOÐ ER SÉRLEGA MIKIÐ OG FJÖLBREYTT. Nemendur geta valið námskeið af ólíkum sviðum tónlistar og mótað námið að sínu áhugasviði og framtíðaráformum. Námið er góður undirbúningur undir margskonar nám og störf í tónlist. Að námi loknu ættu nemendur að vera vel undirbúnir til að takast á við háskólanám í tónlist eða taka að sér tónlistartengd störf.

Nemendur geta valið á milli þess að sérhæfa sig í klassískri eða rytmískri tónlist í hljóðfæraleik eða söng. Lögð er sérstök ÁHERSLA Á SAMLEIK OG SAMVINNU NEMENDA og fá nemendur þjálfun í hljómsveitarleik og fjölbreyttu samspili allan námstímann. Við skólann starfa margir af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar. Sérstaða skólans liggur meðal annars í því að flestir kennarar við skólann eru starfandi listamenn, flytjendur og tónskáld sem taka virkan þátt í tónlistarlífi landsins.

Með stofnun MÍT er leitast við að skapa FRJÓTT OG FJÖLBREYTILEGT UMHVERFI fyrir efnilega tónlistarnemendur af landinu öllu þar sem þeir fá góða og áhugaverða menntun í tónlistarflutningi, tónsköpun og fræðigreinum tónlistar.

Heimasíða MÍT er www.menton.is