Íslenski tónlistar-iðnaðurinn í tölum
Á síðasta ári tóku sig saman STEF og SFH undir hatti Samtóns og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, öðru nafni ÚTÓN, og settu af stað með atfylgi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins rannsókn um tekjur tónlistarfólks og hagrænt umhverfi tónlistargeirans á íslandi.
Rannsóknin var unnin af Margréti Sigrúnu Sigurðardóttur og Erlu Rún Guðmundsdóttur fyrir rannsóknarsetur skapandi greina í HÍ.
Rannsókninni var m.a. ætlað að svara eftirfarandi spurningum;
- Hvernig fá tónlistarmenn sínar tekjur og hvað er tónlistargeirinn almennt að velta?
- Hversu miklu skilar útflutningur á tónlist í þjóðarbúið?
- Hversu miklu eru tónlistarhátíðir og tónleikahald að velta og skilja eftir í hagkerfinu?
- Hvert er hlutfall atvinnumanna og áhugamanna í tónlistargeiranum?
Hluti rannsóknarinnar var unninn á þann hátt að send var út könnun til þúsunda starfandi tónlistarmanna á íslandi og var þáttaka í henni mjög góð.
Helstu niðurstöður:
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að heildartekjur íslenska tónlistariðnaðarins á árunum 2015-2016 voru um það bil 3,5 milljarðar króna, auk 2,8 milljarða í afleiddar gjaldeyristekjur til samfélagsins vegna komu tónlistarferðamanna til landsins. Lifandi flutningur á tónlist stendur fyrir tæplega 60% af heildartekjum iðnaðarins, en hljóðrituð tónlist og höfundarréttur fyrir um 20% hvor. Lifandi flutningur er auk þess mikilvægasti tekjuliður sjálfra tónlistarmannanna en plötusala hefur dregist saman og þar með mikilvægi þeirrar tekjulindar fyrir tónlistarfólk. Niðurstöðurnar sýna einnig fram á að á Íslandi er starfandi afar líflegur áhugamannahópur, en um 67% tónlistarfólks hafa innan við 40% heildartekna sinna af eigin tónlistarstarfsemi. Þá virðist afar erfitt fyrir tónlistarfólk að taka skrefið yfir í atvinnumennsku, en af þeim sem hafa meira en 40% tekna sinna af tónlist eru tæplega 50% með fullar tekjur, eða 90-100%. Leiða má líkur að því að styrkir og annars konar stuðningur við tónlistarfólk geri því mögulegt að taka skrefið.