FIM þing – staða lausavinnu fólks í tónlist

Í lok maí sl. sótti ég til Kaupmannahafnar þing FIM, alþjóðasambands verkalýðsfélaga tónlistarmanna. Í þetta sinn var umfjöllunarefnið staða lausavinnufólks í tónlist og hvað væri hægt að gera til að bæta kjör þess?

Fulltrúar komu frá 30 löndum og óhætt er að segja að ansi ólík mynd blasti við eftir heimshlutum: Fulltrúi Brasilíu sagði frá ótrúlegu ástandi þar sem sífellt frekar er gengið á réttindi tónlistarmanna, fulltrúar Afríkulanda lýstu því að þar eru nálega engin réttindi og fulltrúi Indlands (þar sem áætlað er að liðlega 1 milljón manna starfi sem tónlistarmenn!) skýrði frá veruleika hinna fátæku, þegar engin atvinnubundin réttindi eða tryggingar eru til staðar. Í þessum samanburði hafa þjóðirnar á norðurhveli, í Evrópu og Ameríku það náttúrulega gott en við blasir þó að sótt er að okkur á marga vegu. Minnkandi framlög ríkja til menningarstarfsemi eru staðreynd og “gig-hagvæðingin” ræðst á formfestu og stöðugleika starfa á alla lund.

Öll verkalýðsfélög eru að slást við sama hlutinn, hvernig þau geti hjálpað þeim félagsmönnum sínum sem búa við mest óöryggi og hvernig þau geti búið til nægilegt virði fyrir lausavinnufólkið með félagsaðildinni. Þetta er fólkið sem nýtur síst samninga á vinnumarkaði, þeirra sem gerðir eru fyrir fasta meðlimi tónlistarhópa, tónlistarkennara, tónlistarmenn í leikhúsum o.s.frv. og ná síst að nýta þjónustu félaganna.

Ég sat fyrir hönd FÍH í panel sem bar yfirskriftina “Hvernig mætum við breytingum, starfsferlar byggðir á hlutastörfum og hvernig bætum við möguleika okkar til starfa?” Umræðan fór út um víðan völl en ég fyrir mitt leyti benti  að sjálfsögðu á alhliða menntun sem helsta svarið til að bæta möguleika fólks á vinnumarkaði. Varðandi hvað stéttarfélög geta gert fyrir sína félagsmenn vakti það óskipta athygli fundarmanna að fræðast um stofnun tónlistarskóla FÍH á sínum tíma. Með því hefði unnist að efla kunnáttu ótal tónlistarmanna og hækka staðal tónlistarflutnings, veita fjölmörgum lausamönnum kennslustöður og tryggja þeim þar með festu í launum og svo einnig að búa til öfluga tengingu stéttarfélagsins við grasrót tónlistarlífsins hverju sinni. Slíkt framtak stéttarfélags virðist nánast óþekkt í þessum hópi, fundarmenn spurðu mikið og dáðust að framtakinu. Ég sagði einnig frá “Land & loftbrú” FÍH sem miðaði að því að styrkja ferðalög til tónleikahalds innanlands og svo hugmyndum um að efla menntunarstöðu reynslumikils tónlistarfólks með raunfærnimati en verið er að rannsaka leiðir til útfærslu þess við LHÍ.

Fróðlegri ráðstefnu lauk síðan með samþykkt ályktunar sem ég læt hér fylgja með (óþýdda)

Gunnar Hrafnsson

Ályktun FIM maí 2019