Níu tónleikastaðir fá út – hlutað úr Úrbótasjóði tónleikastaða í Reykjavík

 

 

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkti á ráðsfundi í gær tillögu þess efnis að níu tónleikastaðir og menningarhús er sinna lifandi tónlistarflutningi hljóti styrk úr nýjum Úrbótasjóði tónleikastaða í Reykjavík. Iðnó fékk hæsta styrkinn eða 2.250.000 kr. til kaupa á nýju hljóðkerfi og Gaukurinn og Hannesarholt fengu báðir styrk að upphæð 1.700.000 kr. til að kaupa og setja upp hjólastólalyftu. Kex Hostel og Bryggjan brugghús fengu 1 milljón hvor til kaupa á nýju hljóðkerfi, Stúdentakjallarinn fékk einnig styrk til að bæta hljóðkerfið sitt að upphæð kr. 250.000 og Mengi fékk 380.000 kr. til kaupa á veggtjöldum. Tveir nýir tónleikastaðir í borginni fengu jafnframt styrki úr sjóðnum – Bakkaskemman í Sjávarklasanum fékk styrk til að hljóðdempa rýmið að upphæð kr. 470.000 og Stelpur rokka! fengu 750.000 kr. styrk til að gera nýtt tónleikarými í Breiðholtinu klárt til tónleikahalds en um er að ræða áfengislausan stað með áherslu á tónleikahald fyrir ungmenni sem verður opinn öllum aldurshópum af öllum kynjum.

 

Úrbótasjóður tónleikastaða er runninn undan rifjum Tónlistarborgarinnar í Reykjavík. Reykjavíkurborg leggur sjóðnum til 8 milljónir sem koma úr þeim potti sem árlega er eyrnamerktur menningarstyrkjum og tónlistarsamtökin STEF, Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) og Félag íslenskra hljómplötuframleiðenda (FHF) leggja sjóðnum til 500 þúsund krónur hvert. Hlutverk sjóðsins er aðstyðja við tilvist minni og miðlungs stórra tónleikastaða í Reykjavík með því að veita styrki til úrbóta á tónleikastöðunum hvað varðar aðstöðu, aðbúnað og aðgengi. Þannig er stuðlað að áframhaldandi aðstöðu fyrir lifandi tónlistarflutning í borginni sem styður um leið við tónlistarlífið og eflir mannlífið.

 

Umsóknarfrestur var til 30. ágúst en alls bárust 20 umsóknir í sjóðinn frá 16 tónleikastöðum og menningarhúsum. Heildarupphæð sem sótt var um nam rúmum 34 milljónum króna. Faghópur skipaður einum fulltrúa sem Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð skipaði og tveimur fulltrúum sem STEF, FÍH og FHF skipuðu saman fór yfir umsóknirnar og lagði tillögur um úthlutun fyrir Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð sem var samþykkt.

 

Úrbótasjóður tónleikastaða í Reykjavík er átaksverkefni til tveggja ára og því verður aftur veitt úr sjóðnum fyrir árið 2021. Styrkirnir sem nú eru veittir koma til greiðslu á næsta ári og gert er ráð fyrir að styrkhafar leggi sjálfir til jafnháa upphæð til framkvæmdanna. Í lok næsta árs er öllum styrkhöfum gert að skila greinargerð um ráðstöfun styrkfjárins. 

 

https://reykjavik.is/thjonusta/urbotasjodur-tonleikastada-i-reykjavik