Félag íslenskra hljómlistarmanna

Framlag listafólks lofsvert

 

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sendir listamönnum frábæra kveðju í Fréttablaðinu í dag, 19.mars. https://www.frettabladid.is/sk…/framlag-listafolks-lofsvert/
Hún bendir á að fjárfesting í listum hafi skilað sér í ávinningi fyrir alla og að nú verði að finna leiðir til að styðja tónlistarfólk þegar þeim eru öll sund lokuð í tónleikahaldi. Takk Lilja!

Þegar á reynir hefur íslenska þjóðin styrkt böndin og horft fram á við. Nú stöndum við sannarlega fram fyrir flóknum viðfangsefnum í baráttunni við Covid-19, ekki síst vegna samkomubanns sem síðast var í gildi fyrir rúmri öld. Fyrsta skrefið í baráttunni gegn veirunni snýr að heilsuvernd, enda nauðsynlegt að hefta útbreiðslu hennar. Samhliða þarf að huga að efnahagslegum og félagslegum viðbrögðum. Neikvæð efnahagsleg áhrif veirunnar eru einhver þau mestu sem alþjóðakerfið hefur séð í langan tíma. Þess vegna þarf umfang efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar að vera verulegt.

Þrátt fyrir þessar fordæmalausu aðstæður er afar brýnt að hlúa að menningunni. Íslenskt menningarlíf hefur lengið staðið í blóma og mun áfram blómstra þótt tímabundinn skuggi hafi fallið á samfélagið. Við þurfum á andlegri næringu að halda og ýmsar leiðir eru færar til að njóta hennar. Söfn eru opin og nýjar sýningar eru að fæðast. Útilistaverk færa okkur gleði í nauðsynlegum heilsubótargöngum. Íslenskir listamenn, menningarstofnanir og sjálfstæðir listhópar hafa einnig fundið leiðir til að færa okkur menninguna heim. Streymi, beinar útsendingar og upptökur frá tónleikum, upplestri og leiksýningum eru hafnar og bækur bíða lestrar á náttborðum um allt land. Myndlist bætir lit í gráan hversdagsleikann og íslenskar kvikmyndir létta lund margra, sem komast ekki út meðal fólks.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur stofnað samráðshóp með helstu lykilaðilum í menningarmálum um land allt til að vinna að því mikilvæga verkefni að halda uppi starfsemi listastofnana við þær óvenjulegu aðstæður sem hafa nú skapast. Fundir hópsins sýna að mikil samstaða ríkir og eru allir reiðubúnir að leggjast á eitt til að minnka skaðann.

Ekkert af þessu er þó sjálfsagt. Menningarlíf verður að rækta og viðhalda með kerfisbundnum hætti. Við höfum valið að fjárfesta í menningu og listum með margvíslegum hætti og afraksturinn er óumdeildur. Núverandi aðstæður hafa til dæmis komið illa við tónlistarmenn, sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna viðburða, sýninga og tónleika sem fallið hafa niður. Í mörgum tilvikum eru þetta listamenn sem eru fyrstir til að gefa vinnu sína fyrir góðan málstað, og nú er það okkar hinna að finna leiðir til að styðja þá. Gerum það sem þarf!