Stór hluti félagsmanna finnur mikið fyrir greiðslu- byrði námslána

9.3.2020

  •  

40% svarenda í viðhorfskönnun sem gerð var meðal félagsmanna aðildarfélaga BHM finna mikið fyrir greiðslubyrði námslána eða telja hana verulega íþyngjandi fyrir heimilið.

Um er að ræða netkönnun sem gerð var í janúar síðastliðnum og náði til ýmissa þátta er varða stöðu félagsmanna á vinnumarkaði, kjaramál og vinnuumhverfi. Meðal annars var spurt hvort fólk hefði tekið námslán, hvort það væri að greiða af námslánum, hversu háar eftirstöðvarnar væru og hvort fólk fyndi fyrir greiðslubyrðinni.

60% greiða af námslánum

Í ljós kom að 85% svarenda höfðu einhvern tímann tekið námslán á ævinni og tæplega 60% svarenda þurfa að greiða af námslánum á þessu ári. Rúmlega helmingur þeirra sem greiða af námslánum skulda meira en 4 milljónir króna, þriðjungur skuldar meira en 6 milljónir króna og fimmtungur meira en 8 milljónir króna. Um 11% af þessum hópi skulda meira en 10 milljónir króna og 4% meira en 14 milljónir króna.

Einungis 12% finna lítið fyrir greiðslubyrðinni

Um 47% svarenda sem greiða af námslánum sögðust finna nokkuð fyrir greiðslubyrðinni, 32% sögðust finna mikið fyrir henni, 8% sögðu að greiðslubyrðin væri verulega íþyngjandi fyrir heimilið og um 1% kváðust ekki ráða við að greiða af námslánum sínum. Einungis 12% sögðust finna lítið eða ekkert fyrir greiðslubyrði námslána.

Könnunin var gerð dagana 14.–30. janúar sl. af fyrirtækinu MMR og náði til félagsmanna allra 27 aðildarfélaga BHM sem eru samtals tæplega 16 þúsund. Svarhlutfallið var um 42%. Rétt er að taka fram að svör voru nokkuð mismunandi eftir aðildarfélögum, eftir aldri svarenda og fleiri bakgrunnsbreytum.

BHM kannar reglulega viðhorf félagsmanna aðildarfélaga til ýmissa þátta er varða mikilvæga hagsmuni þeirra. Niðurstöður nýtast m.a. við stefnumótun innan bandalagsins og við að efla hagsmunagæslu í þágu félagsmanna.