FÍH – gleðifréttir!

Kæru félagsmenn,

Ég hef í ansi langan tíma gefið ykkur ádrátt að aðgerða af hálfu hins opinbera væri að vænta fyrir sjálfstætt starfandi og einyrkja í tónlistarstarfsemi.

 

 Samráðshópur tónlistarinnar hefur verið í stanslausu samtali við menntamálaráðuneytið síðan í vor og margoft hefur legið fyrir að nú færi eitthvað að gerast. Því miður hefur ítrekað komið upp að þær aðgerðir sem við höfum   farið fram á komast ekki áfram í „kerfinu“. Ástæðan er augljóslega að yfirvöld hafa áhyggjur af því að innleiða sértækar aðgerðir sem hafa fordæmisgildi og svo hefur verið krafist ítarlegri rökstuðnings fyrir því af hverju listamenn séu í verri stöðu en aðrir?

 

 Mikilvægir þættir í þeim rökstuðningi sem við höfum getað veitt eru meðal annars:

 

  1. a) Samráðshópurinn stóð að „Covid 19 skýrslunni“ sem er afar vönduð úttekt á áhrifum faraldursins á samfélag tónlistarmanna og hefur verið mikilvæg í að skýra aðstæður og stöðu í íslenska tónlistarbransanum.

 

  1. b) Fjögur aðildarfélög BHM (FÍH, FÍL, FL og SÍM) fóru fram á hjálp heildarsamtakanna við að gera kannanir á stöðu listamanna á Covid tímum. Fyrri kannanir sem stéttarfélögin og BÍL höfðu gert voru gagnrýndar fyrir að standast ekki viðurkennda aðferðafræði. BHM bauð hins vegar upp á að hægt væri að tengja aðeins eitt svar við hverja IP tölu og þar með er ekki hægt að véfengja útkomuna  á sama hátt og í fyrri könnunum.

 

BHM hefur síðan gert hagfræðilega úttekt á gögnunum sem safnað var og sendir nú í dag frá sér fréttatilkynningu sem hér fylgir með í viðhengi. Niðurstöðurnar eru ótvíræðar og sýna fram á að listamenn búa við meira tjón en aðrar stéttir.

 

Nú liggja fyrir þær gleðifréttir að ríkisstjórnin hafi samþykkt frumvarp um tekjufallsstyrki og að frumvarpið fari í flýtimeðferð á þingi. Varasamt er að fullyrða á þessu stigi hvort úrræðið grípi öll sem þurfa, til þess þurfum við betri upplýsingar. Samt er ljóst að þessi aðgerð skiptir miklu máli og veitir fjölmörgum  okkar hjálp!

 

Bestu kveðjur og góða helgi,

 

Gunnar Hrafnsson

Formaður FÍH

 

Hér er slóð á fréttatilkynningu BHM:

 

https://www.bhm.is/frettir/mikid-tekjufall-hja-listamonnum-vegna-covid-kreppunnar

 

Hér er slóð á frétt Vísis um samþykkt ríkisstjórnarinnar:

 

https://www.visir.is/g/20202025596d/leggja-fram-frumvarp-um-styrki-til-einyrkja-og-smaerri-rekstraradila