Ályktun aðalfundar BÍL um samningagerð í RÚV
Ályktun BÍL um samningagerð í RÚV
Í nýlegum samningstilboðum sem Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) hefur gert listamönnum koma fram kröfur um að viðsemjandi fallist nú á tilteknar samningsskyldur sem ekki hafa áður verið gerðar. Má þar nefna:
- Að RÚV megi framselja viðkomandi efni til annarra miðla hér á landi og í öðrum löndum
- Að RÚV megi gefa efni viðkomandi út á myndiskum og hljómdiskum eða setja í annars konar dreifingu
- Að greiðslufyrirkomulag í teljist fullnaðargreiðsla fyrir hljóðritanir, útsendingar og notkun á efninu eins og hún sé skilgreind í samningnum
Með þessum ákvæðum er það greinlega ætlun RÚV að taka sér vald til að selja efni sem framleitt er innan veggja RÚV á frjálsum markaði og tryggja sér jafnframt ævarandi eignarrétt á því, þannig að flytjendur og höfundar missi allt tilkall til greiðslna fyrir þessi réttindi. Þessum kröfum er augljóslega ætlað að rýmka allar heimildir RÚV frá því sem nú er til hagnýtingar verka viðsemjenda.
Rétt er í þessu sambandi að geta að ekkert samtal hefur átt sér stað milli RÚV og fulltrúa listamanna um þessi tilteknu atriði samninga. Við það verður ekki unað af hálfu listflytjenda og höfunda að RÚV sæki með þessum hætti að réttindum þeirra.
Aðalfundur BÍL mótmælir harðlega framgöngu RÚV þar sem þessari aðferðafræði er beitt og hvetur stofnunina til að endurskoða þegar í stað kröfur sínar í samningagerð varðandi framangreind atriði.