Kalla eftir ábyrgð

- Freyja Gunnlaugsdóttir

Árið 2011 tók Reykjavíkurborg einhliða ákvörðun um að hætta að styðja við nám á framhaldsstigi í tónlist. Þetta ákvað borgin að gera í framhaldi af samkomulagi ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms. Frá gerð samkomulagsins hefur Reykjavík deilt við ríkið um hvernig beri að skilja það og fram til þessa haldið því fram að með samkomulaginu hafi ríkið alfarið tekið við ábyrgð á kennslukostnaði við framhaldsnám í tónlist.

Afleiðingarnar eru að þeim tónlistarskólum í Reykjavík sem kenna að stærstum hluta á framhaldsstigi hefur blætt út og nú er svo komið að þeir geta ekki starfað áfram. Þegar eru hafnar uppsagnir á tónlistarkennurum í borginni.

Tónlistarnám fyrir rétti
Þann 14. október síðastliðinn var réttað í máli Tónlistarskólans í Reykjavík gegn Reykjavíkurborg vegna vangoldins kennslukostnaðar við nám á framhaldsstigi í tónlist. Málsóknin var neyðarúrræði skólans til þess að fá skorið úr um lögmæti áðurnefndrar ákvörðunar borgarinnar og bíður málið nú dómsúrskurðar.

Við réttarhöldin hélt borgarlögmaður því fram að Reykjavíkurborg bæri engin skylda til þess að reka tónlistarskóla og að hún gæti alfarið ákvarðað hvort og með hvaða hætti stuðningi við tónlistarkennslu væri háttað. Jafnframt áleit borgarlögmaður að borgin gæti forgangsraðað nemendum að vild, eftir aldri, búsetu, hljóðfærum eða eftir hvaða öðrum mælikvörðum sem henni þóknaðist. Þetta er einmitt það sem Reykjavík hefur gert; árið 2011 tók hún ákvörðun um að styrkja aðeins nemendur á grunn- og miðstigi til tónlistarnáms, en hætta alfarið stuðningi við nemendur á framhaldsstigi.

Það sem er nýtt í málflutningi borgarlögmanns er að Reykjavík hafi alla tíð gert sér grein fyrir því að með fyrrnefndu samkomulagi væri ríkið ekki að taka að sér tónlistarmenntun á framhaldsstigi og að ekki væri hægt að gera lagalega kröfu á ríkið að taka við málaflokknum, enda eru málefni tónlistarskólanna formlega á höndum sveitarfélaganna.

Stefna Reykjavíkur
Þetta þýðir að Reykjavík tók meðvitaða ákvörðun um að hætta að bjóða upp á framhaldsmenntun í tónlist í Reykjavík. Hún afsalaði sér ábyrgð á kennslu á þessu námsstigi án þess að semja við ríkið um að taka yfir málaflokkinn. Tónlistarskólarnir voru því skildir eftir án þjónustusamninga fyrir framhaldsstigið og hvorki Reykjavíkurborg né ríkið taka ábyrgð á kennslu á þessu námsstigi.

Þetta er stjórnvaldsákvörðun sem hafði gríðarlega miklar afleiðingar í för með sér og mun hafa eyðileggjandi áhrif á íslenskt tónlistarlíf til frambúðar. Samt sem áður var tónlistarskólunum ekki gerð grein fyrir því með lögboðnum hætti að Reykjavík hefði tekið þessa afdrifaríku ákvörðun. Stjórnendur skólanna stóðu í þeirri trú að þeir gætu starfað áfram með svipuðum hætti eftir að samkomulag um eflingu tónlistarnáms tæki gildi, enda gerði borgin engar athugasemdir við þann nemendafjölda og kennslumagn sem tilkynnt var um í skýrslum sem skólarnir senda til borgarinnar á hverju ári.
Ef tekið er mið af málflutningi borgarlögmanns í síðustu viku er ljóst að Reykjavíkurborg telur að sér beri hvorki lagaleg né samfélagsleg skylda til þess að bjóða upp á framhaldsnám í tónlist í höfuðborginni.

En var þetta meðvituð pólitísk ákvörðun? Ég hlýt að spyrja borgar­stjóra Reykjavíkur: Er það raunveruleg stefna borgarinnar í málefnum tónlistarfræðslu, að leggja niður framhaldsmenntun í tónlist í Reykjavík?

http://www.visir.is/kalla-eftir-abyrgd/article/2015151029996