Velkomin heim – ný tónleikaröð

Velkomin heim – ný tónleikaröð á vegum FÍT og FÍH í samstarfi við Hörpu 

Á sunnudaginn hefst ný tónleikaröð innan Sígildra sunnudagar í Hörpu. Þessi röð hefur hlotið nafnið Velkomin heim og skapar vettvang fyrir unga tónlistarmenn til tónleikahalds í Hörpu. Söngvarar, hljóðfæraleikarar og tónskáld sem lokið hafa námi erlendis fá hér tækifæri til að kynna sig og leyfa áhorfendum að njóta árangurs náms og starfa. Hvort sem tónlistarmennirnir velja starfsvettvang sinn hér heima eða utanlands gefst hér tækifæri til þess að kynnast ungu hæfileikafólki. Þó áhersla sé lögð á sígilda tónlist verður stofnað til samstarfs ólíkra tónlistargeira og boðið upp á bæði hefðbundnar og óhefðbundnar efnisskrár.

Jónína Björt Gunnarsdóttir, söngkona og Ásbjörg Jónsdóttir píanóleikari opna tónleikaröðina með dagskrá sem nefnist Tímaflakk – Keeping Time on Broadway. Jónína Björt er nýlega flutt heim frá New York þar sem  hún útskrifaðist frá söngleikjadeild New York Film Academy. Hún hóf söngnám sitt á Akureyri og stundaði síðar nám við Listháskóla Íslands. Ásbjörg stundar nú nám við tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands en hóf sitt píanónám við tónlistarskóla Mosfellsbæjar og nam síðar við FÍH. Þær stöllur munu flytja söngleikjatónlist frá 1940 til dagsins í dag og myndar saga og þróun tónlistarinnar rauða þráðinn í efnisskránni. Fjölbreytt efnisskrá, þekkt verk og önnur sem ekki hafa áður heyrst hér á landi, m.a. eftir Rodgers & Hammerstein, Stephen Sondheim, Jason Robert Brown og Söru Bareilles.

Tónleikarnir hefjast kl. 17.00 og fara fram í Hörpuhorni á annari hæð. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Hörpu, FÍH og FÍT, klassískrar deildar FÍH. Aðgangur er ókeypis.

Hjálpumst endilega að við að kynna síðuna,

 

https://www.facebook.com/Velkomin-heim-The-Harpa-Welcome-Series-970863469726382/?fref=ts

 

deila viðburðinum, 

 

https://www.facebook.com/events/299788450405529/

 

og kynna röðina fyrir nemendum og samstarfsfólki, svo hún megi festast í sessi og halda áfarm að skapa tækifæri fyrir ungt tónlistarfólk á komandi árum. 

 

Alls verða haldnir fimm tónleikar í vetur, en þeir næstu eru sunnduginn 6. nóvember.  Þá leikur Chrissie Telma Guðmundsdóttir efnisskrá fyrir einleiksfiðlu er nefnist:

 

Fiðlan ein í heiminum / A violin goes solo 

Með kærri kveðju,

Hlín Pétursdóttir Behrens

Formaður FÍT, klassískrar deildar FÍH