ÝLIR – TÓNLISTARSJÓÐUR HÖRPU FYRIR UNGT FÓLK AUGLÝSIR EFTIR UMSÓKNUM

Fréttatilkynning 29. desember 2016

harpa-i-lit

Ýlir – Tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk hefur það að markmiði að styðja ungt tónlistarfólk og veita því tækifæri til að koma fram í Hörpu. Sjóðurinn styður við tónleika og tónlistarverkefni af ólíkum toga og vill þannig ýta undir fjölbreytt tónlistarlíf í húsinu.

Sjóðurinn hefur nú hafið umsóknarferli sitt fyrir tónleika og verkefni sem fyrirhuguð eru ár árinu 2017. Meðal þeirra þátta sem stjórn sjóðsins lítur til við afgreiðslu umsókna er hvernig tónleikarnir og verkefnið nýti möguleika Hörpu sem tónlistarhúss, möguleikar þess til að höfða til nýrra áheyrendahópa og hvernig það nýtist ungu og efnilegu tónlistarfólki.

 

Á síðustu árum hefur sjóðurinn stutt við rúmlega fjörutíu tónleika, tónlistarhátíðir og fræðsluverkefni í Hörpu. Má þar nefna Nótuna uppskeruhátíð tónlistarskóla í landinu, tónleikaseríurnar Eflum ungar raddir og Tónsnillingar morgundagsins, tónlistarhátíðina Wacken Metal Battle á Íslandi, Operuakademíu unga fólksins, Harpa International Music Academy, lokatónleika Stelpur rokka og Músíktilraunir sem í rúmlega þrjá áratugi hefur verið vettvangur fyrir ungar og efnilegar hljómsveitir til að koma sér á framfæri. Sjóðurinn hefur einnig stutt við tónleika listamanna á borð við Agent Fresco, Ylja, Elfu Rún Kristjánsdóttur og Emmsjé Gauta.

Umsóknarfrestur er til 16. janúar. Umsóknareyðublað og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu sjóðsins; ylir.is

Um Ýli
Tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk, sem síðar fékk nafnið Ýlir – tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk, var stofnaður í lok árs 2010 þegar Menningarsjóði SPRON var slitið með úthlutun til ýmissa mennta-, menningar- og góðgerðarmála. Alls var 80 milljónum króna varið til stofnunar þessa tónlistarsjóðs sem ætlaður er til þess að veita ungu og efnilegu tónlistarfólki tækifæri á að koma fram í Hörpu. Vefur: www.ylir.is

 

Myndefni
Merki sjóðsins í lit og svart/hvítt má nálgast hér:  http://ylir.is/um-yli
Myndefni tengt Hörpu má nálgast hér: https://www.harpa.is/harpa/fyrirtaekid/fjolmidlar/

Hlekkir
Ýlir – www.ylir.is
Harpa – http://www.harpa.is

Frekari upplýsignar veita 
Stjórn sjóðsins;
Eldar Ástþórsson, S: 869 8179
Arna Kristín Einarsdóttir,  S: 691 7671
Tryggvi M Baldvinsson, S: 861 4126