Hver samdi fyrir hvern ?

Að gefnu tilefni vill stjórn FÍH koma eftirfarandi á framfæri:

Á fundi, sem haldinn var þriðjudaginn 24.febrúar sl.  í Rauðagerði 27 í samstarfsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags íslenskra hljómlistarmanna,  var eftirfarandi yfirlýsing samþykkt af hálfu fundarmanna.

,,Yfirlýsing frá SNS

Með samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara í deilu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) þann 10. febrúar sl. varð til mismunur í launasetningu kennara sem gegna sömu störfum og eru félagsmenn í Félagi íslenskra hljómlistarmanna.

Til samræmis við stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að jafnræði ríki í launasetningu sömu starfa óháð kynferði, búsetu eða stéttarfélagsaðild, er launamunurinn leiðréttur með sérstakri aðgerð í fundargerð þessari.

SNS sótti sérstakt umboð til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga til nauðsynlegra breytinga á kjarasamningi aðila sem samþykkt var á stjórnarfundi sambandsins þann 23. febrúar 2017. 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:30”

Þessi yfirlýsing er afrakstur málefnalegra samningaviðræðna á mill FÍH og SNS, sem stóð yfir í sex mánuði og endaði með gerð kjarasamnings.  Kjarasamningurinn var kynntur fyrir félagsmönnum borinn upp til samþykktar eða synjunar og samþykktur í rafrænni atkvæðagreiðslu með yfirgnæfandi meirihluta.

 Í kjölfar þessarar yfirlýsingar samstarfsnefndar hafa félagar okkar í FT fengið póst frá félagi sínu þar sem gefið er í skyn að samninganefnd FÍH sé að njóta afraksturs samninganefndar FT, sem hafi staðið í ströngu við gerð kjarasamnings.  Hið rétta er að samninganefnd FT náði ekki neinum samningi í þetta sinn heldur var það miðlunartillaga ríkissáttasemjara sem lögð var fyrir félagsmenn FT og það var hún sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.  Þegar menn skoða miðlunartillöguna og bera texta hennar við samninginn sem FÍH gerði við SNS þá er textinn næstum því samhljóða.

Því er hægt að spyrja hver samdi um hvað og fyrir hverja? Það er skylda hvers stéttarfélags að vinna að bættum kjörum fyrir sína félagsmenn með gerð kjarasamninga og leggja þá hverju sinni fyrir félagsmenn sína til kynningar og samþykktar.  Samninganefnd FÍH hefur gert það og beitt fyrir sig almennum aðferðum sem eru viðurkenndar í samningaviðræðum og þess vegna náð árangri fyrir félagsmenn sína.  Kjarasamningar og vinnan við þá er vinnan endalausa.  Það er hægt að beita margvíslegum aðferðum við að ná árangri en eitt er víst að ef ekki er fyrir samstaða þá er heldur enginn árangur.  Frá því að FT og FÍH slitu samstarfi hefur verið alið á óvild og tortryggni, sem er engum til gagns enda er sú samstaða sem einkenndi tónlistarkennara fyrir 2013 að engu orðin.  Það er tímabært að slíðra sverðin og við hvetjum þá sem stunda þá orðræðu, sem við verðum vitni að, að spyrja sig hvernig ætla þeir að vinna starfskjörum tónlistarkennara brautargengi í komandi framtíð?

Brennum ekki allar brýr að baki okkar með óábyrgri orðræðu. Vinnum saman að betri framtíð fyrir okkur öll.

 

Stjórn FÍH

fih-merki