Land- og loftbrú FÍH – nýtt – ferðastyrkir

Land- og loftbrú FÍH – ferðastyrkir

 

Kæru félagsmenn,

ú er að hefjast tilraunaverkefni hjá FÍH sem vonandi gengur vel og verður til framtíðar. Ferðalög milli landshluta í tónleikahaldi eru oftast þungur fjárhagslegur baggi og kostnaðurinn verður stundum til þess að tónleikar eru ekki haldnir. Félagið hyggst veita ákveðnum fjárhæðum í að gera ferðalögin auðveldari og efla þannig flutning lifandi tónlistar á landsvísu. 

 

Hvað?

FÍH ætlar að styrkja félagsmenn í FÍH til ferða á tónleikastaði innanlands á tvo vegu: með innanlandsflugi Air Iceland Connect og/eða með Bilaleigu Akureyrar.

 

Hvernig?

Veittir verða styrkir til tónleikaferða að upphæð 10.000 kr hverju sinni á félagsmann og hámark  styrkveitinga á einstakling er þrisvar sinnum á ári.

 

Fyrir hverja?:

Styrkirnir eru ætlaðir öllum tónlistarmönnum sem hafa gilda félagsaðild að FÍH.

 

Hvenær byrjar styrkveitingarnar?

Tekið verður á móti styrkumsóknum frá og með mánudeginum 25.september

 

Nánar:

Félagsmaður sækir um til FÍH og tilgreinir tónleikavettvang og dagsetningu á sérstöku eyðublaði sem hægt er að sækja á heimasíðu FÍH undir flipanum “Umsóknir”. Verið er að forrita gagnagrunn sem heldur utan um styrkveitingarnar en uns forritið er tilbúið þarf hver félagsmaður að prenta út eyðublaðið, fylla út, skanna og senda aftur eða koma því með öðru móti á skrifstofu FÍH í Rauðagerði 27.

 

Styrkur frá Air Iceland Connect verður í formi inneignarkóða sem félagsmaður fær úthlutaðan. Inneignin getur síðan gengið upp í miðakaup að vali félagsmanns og ef ekki nýtist öll inneignin varðveitist afgangurinn á nafni viðkomandi. Augljóst er, að mikilvægt er að fylgjast með bestu kaupum á farmiðum og hugsa fram í tímann til að inneignin nýtist sem best.

 

Styrkur til að leigja hjá Bílaleigu Akureyrar verður í formi inneignar, sem einnig varðveitist á nafni viðkomandi sé hún ekki öll nýtt. Áreiðanlega er hentugt fyrir fleiri en einn félagsmann að sameinast um bílaleiguna og ná sem mestu út úr inneignum þannig.

 

Það er okkar einlæga von að þessi tilraun verði góð lyftistöng fyrir tónleikahald um allt land.

 

Stjórn FÍH