Sinfó og RÚV vilja heyra sögu þína!

Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV undirbúa tónlistarveislu í sumarlok. Klassíkin okkar snýr aftur og leitar nú að persónulegum sögum bak við tónlistina. Og nú leitum við til ykkar til að breiða út erindið að fá fólk til að hugsa: á ég svona sögu eða veit ég um einhvern sem á góða sögu? 

Við ætlum því að biðja ykkur um að dreifa erindinu milli ykkar félagsmanna. Við erum ekki bara að leita að sögum frá tónlistarfólki en það væri frábært að fá ykkur til liðs í leitinni.  

 

Uppleggið er þetta:

Segðu okkur frá þínu eftirlætis tónverki, íslensku eða erlendu, og hvers vegna það er í uppáhaldi – hvernig það tengist lífi þínu. Hver veit nema verkið þitt – og sagan þín – verði öðrum innblástur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg, sem sýndir verða í beinni útsendingu í Sjónvarpinu föstudagskvöldið 1. september.
Spurt er: Hefur tónlist breytt lífi þínu?
Tónlist vekur hjá okkur djúpar tilfinningar, tengist dýrmætum minningum og bindur okkur við fólkið sem okkur þykir vænt um. Við viljum heyra tónlistarsöguna þína. Sögu um hvernig sígild tónverk hafa haft áhrif á þig, minnt þig á merkilega atburði eða minnisstæðar manneskjur – nú eða bara lita hversdagslífið. 

 

Tvær leiðir eru til að senda inn sögu. 

Á slóðinni www.ruv.is/klassikin er að finna þátttökuform en einnig er hægt að senda tónverk og sögu á netfangið klassikin@ruv.is