FÍH hafði betur gegn RÚV í Félagsdómi

FÍH hafði betur gegn RÚV í Félagsdómi.

Eins og flest ykkar vita hefur FÍH staðið í málaferlum síðan 2020 við RÚV varðandi efndir kjarasamnings milli aðilanna. Tilefnið var greiðslur til tónlistarmanna vegna upptakna RÚV á Jazzhátíð Reykjavíkur 2019 og deilan snérist um hvort kjarasamningurinn gilti þegar RÚV semdi við þriðja aðila um framleiðsluna. Mikilvægt var að fá úrskurðað í málinu og fordæmisgildið er mikið því meirihluti upptakna á vegum RÚV er gerður með milli göngu annarra „framleiðenda“.

 

Skemmst er frá að segja að málið vannst í félagsdómi, dómurinn er endanlegur og fallist á allar kröfur FÍH. Þetta færir okkur breytta samningsstöðu gagnvart RÚV þar sem nú er skilyrt með dómi að greiðslur frá RÚV til tónlistarmanna vegna hljóðritana mega ekki fara undir ákvæði kjarasamningsins, þó þriðji aðili komi í milli.

 

Að því sögðu þá er rétt að benda á að RÚV er einn helsti samstarfsaðili íslensks tónlistarfólks og mikilvægt er að stofnunin geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki enn betur en hefur verið seinni ár.

Mögulega eru sum atriði samnings okkar ekki að þjóna markmiðum sínum, eins og tímar hafa þróast, og þarfnast endurskoðunar. Við höfum því byrjað samtal við RÚV um mögulegar endurbætur sem hefðu m.a. eftirtalin markmið: Tryggt verði að tónlistarfólk fái laun fyrir vinnu sína í tilvikum hljóðritana sem enda hjá RÚV og ennfremur að stofnunin hafi möguleika til að geta gert enn betur í fjölda og gæðum upptakna og þáttagerðar. Samtalið lofar góðu og þráðurinn verður tekinn upp í ágúst.

 

Hér er dómurinn í heild sinni ásamt minnisblaði BHM: https://www.bhm.is/greinar/domur-felagsdoms?fbclid=IwAR0dArBVwGh7VO1RAm4ewnsHc-DLHWVL3hvmfqaFMeKTH8Zs97vdSlTbc4s