FIM þingi í Belgrad er nýlokið

Nú um helgina (10.-13. nóvember) lauk þingi FIM (alþjóðasambands tónlistarstéttarfélaga) en þar komu saman evrópsku aðildarfélögin til að ræða sín brýnustu hagsmunamál.

 

Stórt hagsmunamál vegur þungt í umræðunni, en þar er um að ræða hversu miklar hömlur flugfélög leggja á að tónlistarmenn geti ferðast með hljóðfæri. Tilkoma lággjaldaflugfélaga og hert samkeppni hefur gert hljóðfæraflutninga afar kostnaðarsama og erfiða. Ýmsar aðgerðir eru í gangi til að fá þessu breytt: viðtöl við forráðamenn flugfélaga og stjórnmálamenn og staðið hefur verið fyrir undirskriftalistum frá tónlistarmönnum og velunnurum þeirra.

 

Heilsufar tónlistarmanna var til umræðu, álag vegna hljóðfæraleiks veldur oft viðvarandi heilsufarsmálum og rætt var hvernig stéttarfélögin gætu staðið enn betur að því að aðstoða félagsmenn sína í leit að lækningu. Í því samhengi er vert að benda á samstarf FÍH við Kára Árnason sjúkraþjálfara, sem sérhæfður er í tónlistartengdum heilsuvandamálum. Upplýsingar um starf Kára eru hér annars staðar á heimasíðunni

 

Fulltrúar norrænu stéttarfélaganna, auk þeirra þýsku, austurrísku og svissnesku, funduðu síðan sérstaklega til að finna fleti á sérstöku samstarfi um  réttindamál, starfsumhverfi og menntun.

 

Áberandi er hversu mörg stéttarfélög eru að glíma við grimma niðurskurði í framlögum til menningarmála og þá sérstaklega í löndum Suður-Evrópu, Spáni, Ítalíu og á Balkanskaganum. Í þeim samanburði var næstum feimnismál að segja frá árangri sem náðst hefur og tengist tónlist á Íslandi nýverið.  Fyrir liggur að stofnaður hefur verið hljóðritasjóður til eflingar útgáfu á íslenskri tónlist, samþykkt hefur verið niðurfelling á opinberum gjöldum vegna hljóðritana, samþykkt hefur verið framlag ríkis til IHM (Innheimtumiðstöðvar höfundaréttargjalda) og ekki síst er nýstofnaður menntaskóli í tónlist orðinn að veruleika.  Þetta vakti mikla athygli fundarmanna og þeir dáðust að þeirri menningarvitund sem þessi árangur sýndi. Þótt við séum oft ósátt við stöðu okkar tónlistarmanna hérlendis þá leiddi umræðan fram að við höfum náð nokkrum árangri.fim-fundur-i-belgrad-2016