Hljóðfæratrygging – skilmálar
190 Skaðatrygging lausafjár
VÁTRYGGINGASKILMÁLAR
-
1. Vátryggingarsvið og þeir sem eru vátryggðir.
1.1 Vátrygging þessi bætir hvers konar tjón eða skemmdir á hinu vátryggða af völdum bruna, þjófnaðar, vatnstjóns, flutningsslyss eða skyndilegs óhapps svo og ef hið vátryggða fer alveg forgörðum.
1.2 Vátryggingartaki er vátryggður. Vátryggingin er ekki til hagsbóta fyrir aðra aðila, svo sem rétthafa að þinglýstum eignarrétti, veðrétti eða öðrum skráðum eða óskráðum eignarréttindum nema sérstaklega hafi verið samið um annað. Vátryggingin er heldur ekki til hagsbóta fyrir nýjan eiganda og fellur niður við eigendaskipti. Vátryggingin gildir þó fyrir nýjan eiganda, ef vátryggingaratburður verður innan 14 daga frá eigendaskiptum og nýi eigandinn hefur ekki sjálfur tekið vátryggingu. -
2. Takmarkanir á gildissviði vátryggingarinnar.
2.1. Vátryggingin bætir ekki:
a. brotatjón á hlutum úr leir eða gleri, nema tjónið stafi af því að flutningstæki hlekkist á, bruna, þjófnaði eða allur hinn vátryggði hlutur fari forgörðum,
b. tjón vegna ónógra eða lélegra umbúða,
c. tjón sem stafar af snöggum hita- eða rakabreytingum, tæknilegum bilunum, sliti, rýrnun, meindýrum eða því að vátryggðir munir skemmast af eðlislægum ágalla (inherent vice),
d. tjón á töskum sem rispast eða skemmast vegna hnjasks,
e. tjón vegna eignaupptöku, kyrrsetningar og svipaðra aðgerða opinberra aðila sem hafa tekið sér opinbert vald svo og tjón sem verða af völdum styrjaldar, uppreisnar, óeirða eða verkfalls,
f. tjón sem verða er vátryggður gleymir hlut, týnir honum eða misleggur og hlutum sem skildir eru eftir á almannafæri t.d. (til dæmis) afgreiðslum flutningsaðila, baðstöðum, tjaldstæðum, almennum snyrtiherbergjum o.s.frv. (og svo framvegis),
g. tjón vegna þjófnaðar úr ólæstum híbýlum, bifreiðum og bátum.
2.2 Vátryggingin nær ekki til ábyrgðar vegna taps eða tjóns, sem stafar beint eða óbeint, að öllu leyti eða að hluta, af áhrifum dagsetninga á starfsemi búnaðar, kerfa eða samblands þessa hvoru tveggja. Undanþága þessi á við allar dagsetningar, hvort sem þær tengjast aldamótum, áramótum eða öðrum tíma. Með “dagsetningu” er átt við tilgreiningu tíma sem byggist á almanakskerfi þegar tímasetningin verkar sem upplýsingar, kóti, merki eða með hvers konar öðrum hætti í búnaði, kerfi eða samblandi þess hvoru tveggja. Með “búnaði” er átt við hvers konar vélar, tæki, vörur og aðra áþreifanlega hluti eða hóp hluta, hvort sem um er að ræða fasteign eða lausafé, þ.m.t. (þar með talið) en þó ekki takmarkað við vélbúnað tölva, hugbúnað eða samþætt rafeindakerfi, þ.m.t. örgjörvar og kísilflögur. Með “kerfi” er átt við hvers konar upplýsingar, fyrirmæli eða safn þess og hvers konar miðil fyrir upplýsingar og fyrirmæli í tölvutæku formi, á pappír eða í formi geisla, bylgna, eðlisfræðilegra áhrifa, efnaferla eða annars óáþreifanlegs eða áþreifanlegs. Undanþága þessi nær ekki til tjóns, sem stafar af bruna, sprengingu, hrapi, þjófnaði eða vatnsskaða.
-
3. Svik og aðrar rangar upplýsingar.
3.1. Hafi vátryggingartaki við gerð eða endurnýjun vátryggingarsamnings sviksamlega eða með öðrum hætti vanrækt skyldu sína til að veita félaginu upplýsingar um atvik sem haft geta þýðingu fyrir mat þess á áhættunni og vátryggingaratburður hefur orðið fellur ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta, sbr. (samanber) 20. gr. (grein) vátryggingarsamningalaga. Rangar og ófullnægjandi upplýsingar veita félaginu ennfremur rétt til að segja vátryggingunni upp, sbr. 21. gr. laganna.
3.2. Veiti vátryggður við uppgjör bóta af ásetningi rangar upplýsingar sem hann veit eða má vita að leiða til þess að hann fær greiddar bætur sem hann á ekki rétt til fellur bótaréttur hans niður og félagið getur sagt upp öllum vátryggingarsamningum sínum við vátryggðan eins og nánar greinir í 47. gr. vátryggingarsamningalaga. -
4. Ásetningur og stórkostlegt gáleysi.
4.1. Valdi vátryggður tjóni af ásetningi ber félagið enga ábyrgð á tjóninu. Hafi hann valdið tjóninu af stórfelldu gáleysi er félagið laust úr ábyrgð í heild eða að hluta.
-
5. Gildistími og uppsögn.
5.1. Vátryggingin gildir fyrir það tímabil sem tilgreint er í vátryggingarskírteini eða iðgjaldskvittun. Þegar tímabilinu lýkur framlengist vátryggingin um eitt ár í senn nema vátryggingartaki hafi sagt henni upp innan mánaðar frá því að félagið sendi tilkynningu um gjalddaga hins nýja tímabils skv. (samkvæmt) gr. 6.1. Ekki er þó skylt að tilkynna uppsögn fyrr en tvær vikur eru til loka tímabilsins. Sé vátryggingin hins vegar tekin vegna atvinnurekstrar og umfang rekstraraðila samsvarar fleiri en fimm ársverkum eða starfsemin fer að mestu leyti fram erlendis skal uppsögnin ávallt hafa borist félaginu í síðasta lagi einum mánuði fyrir lok tímabilsins.
5.2. Nú hefur vátryggingaratburður orðið, sem leitt hefur til alvarlegs trúnaðarbrests milli félagsins og vátryggingartaka, eða áhættumat, sem er til grundvallar vátryggingunni og iðgjald miðast við, hefur gerbreyst, er félaginu þá heimilt að segja tryggingunni upp með tveggja mánaða fyrirvara. Verði þrjú bótaskyld tjón á 18 mánaða tímabili hefur félagið rétt til þess að segja vátryggingunni upp. Skrifleg uppsögn skal fara fram án ástæðulauss dráttar eftir að félaginu varð kunnugt um atvik sem veita því rétt til uppsagnar. Félaginu er skylt að endurgreiða hlutfallslega iðgjald fyrir þann tíma sem eftir er af vátryggingartímabilinu. -
6. Greiðsla iðgjalds.
6.1 Greiða skal fyrsta iðgjald þegar vátryggingin gengur í gildi og síðari iðgjöld á tilgreindum gjalddögum. Félagið sendir vátryggingartaka tilkynningu um greiðslu iðgjaldsins. Í tilkynningunni skal greiðslufrestur tilgreindur sérstaklega sem skal vera einn mánuður hið skemmsta frá þeim degi sem tilkynningin er send.
6.2 Sé iðgjald ekki greitt þegar greiðslufresti lýkur skv. 1. mgr. (málsgrein) er félaginu heimilt að senda sérstaka aðvörun þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga ella fellur vátryggingin niður sé iðgjaldið þá enn ógreitt.
6.3 Hafi vátryggingartaki ekki samið sérstaklega við félagið um greiðslu iðgjaldsins áður en frestur skv. 2. mgr. rennur út telst það ógreitt, ef það er ekki að fullu greitt þegar fresturinn er úti.
6.4 Krafa um greiðslu iðgjalds er send á heimilisfang vátryggingartaka sem tilgreint er í þjóðskrá nema hann hafi tilgreint annað heimilisfang sérstaklega. Breytingar á tilgreindu heimilisfangi skal þegar í stað tilkynna félaginu.
6.5 Falli vátrygging niður skv. 2. mgr. skal vátryggingartaki engu að síður greiða iðgjald fyrir það tímabil sem vátryggingin var í gildi. Reiknast þá iðgjaldið sem um skammtímatryggingu hafi verið að ræða.
6.6 Við innheimtu iðgjalds er félaginu heimilt að innheimta sérstakt gjald, sem nánar skal tilgreint í iðgjaldaskrá til að standa straum af kostnaði við innheimtu iðgjaldsins. Þess skal einnig getið sérstaklega í tilkynningu um greiðslu iðgjaldsins. -
7. Ráðstafanir til varnar tjóni.
7.1 Vátryggður skal gæta hins vátryggða vel og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að það skemmist eða glatist.
-
8. Tilkynning um tjón.
8.1 Verði tjón, er vátryggingin tekur til, skal vátryggður gera ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að sanna að vátryggingaratburðurinn hafi orðið, þ.á.m. (þar á meðal) að tilkynna lögreglu um þjófnað.
8.2 Tjón sem verður á vátryggðum munum á gisti- og veitingahúsum eða í vörslum flutningsmanna, s.s. (svo sem) skipaog flugfélaga, skal auk þess tilkynna fyrirsvarsmönnum þessara aðila og áskilnaður gerður um rétt til skaðabóta úr þeirra hendi.
8.3 Tilkynning um tjón skal send félaginu án ástæðulausrar tafar. Vanræksla á tilkynningarskyldu getur varðað lækkun eða missi bóta eftir reglum laga um vátryggingarsamninga. -
9. Vátryggingarfjárhæð.
9.1 Vátryggingarfjárhæðin, sem er sú hámarksfjárhæð bóta sem félagið greiðir vegna hinna vátryggðu hagsmuna á hverju vátryggingartímabili, er tilgreind á vátryggingarskírteini eða iðgjaldskvittun.
9.2 Það er skilyrði að vátryggingarfjárhæð hins vátryggða skuli vera sem næst sannvirði. Sé vátryggingarfjárhæðin lægri en verðmæti hins vátryggða er ábyrgð félagsins aðeins hlutfallsleg eftir þeim mun sem er á vátryggingarfjárhæðinni og verðmæti hins vátryggða.
9.3 Verði tjón á einstökum hlut, sem er meira virði en 5% af heildarvátryggingarfjárhæð, takmarkast greiðsluskylda félagsins við þá fjárhæð, ef verðmætis hlutarins er ekki sérstaklega getið á vátryggingarskírteini eða iðgjaldskvittun.
9.4 Hafi tjón verið bætt lækkar vátryggingarfjárhæðin um það sem bótunum nemur frá þeim degi er vátryggingaratburðurinn varð til loka vátryggingartímabilsins. Vátryggingartaki hefur þó rétt til að halda óbreyttri vátryggingarfjárhæð gegn því að greiða hlutfallslegt viðbótariðgjald. -
10. Uppgjör tjóns – vátryggingarverðmæti.
10.1 Vátryggingarverðmæti húsmuna, véla og annars rekstrarbúnaðar miðast við nývirði, þ.e. (það er) þá upphæð sem þurft hefði til kaupa á hlutum þeim er fórust eða skemmdust með því verðlagi sem síðast var á slíkum hlutum áður en tjónið bar að höndum án frádráttar vegna aldurs og notkunar, en að frádreginni hæfilegri fjárhæð vegna verðrýrnunar sökum minnkaðs notagildis eða annarra sambærilegra atvika.
10.2 Vátryggingarverðmæti hluta sem vátryggður hefur sjálfur framleitt til sölu skal ákveðið í samræmi við verð það sem fengist hefði fyrir þá síðast áður en vátryggingaratburður gerðist við sölu þeirra með venjulegum skilmálum að frádregnu venjulegum sölukostnaði, verslunaráhættu og hagræði af því að verðið er greitt út í hönd. Þó skal aldrei greiða hærri bætur en nauðsynlegar eru til að bæta tjón það sem orðið hefur.
10.3 Vátryggingarverðmæti hluta sem vátryggður er að framleiða í því skyni að selja síðar skal miða við framleiðslukostnað að viðbættum hluta af almennum kostnaði, en að öðru leyti, og eftir því sem við getur átt, skal verðmætið ákveðið eftir þeim reglum sem greinir í 2. mgr.
10.4 Vátryggingarverðmæti hlutar, sem 1. til 3. mgr. taka ekki til, skal nema þeirri upphæð sem þurft hefði til kaupa á hlutnum með því verðlagi, sem síðast var á honum áður en vátryggingaratburðurinn gerðist, að frádreginni hæfilegri verðrýrnun vegna aldurs, notkunar, minnkaðs notagildis og annarra atvika.
10.5 Reki vátryggður virðisaukaskattskylda starfsemi og getur talið virðisaukaskatt af kostnaði við endurbætur á vátryggðum hlutum til innskatts samkvæmt reglum laga um virðisaukaskatt skal vátryggingarverðmæti þeirra lækka sem innskattinum nemur. -
11. Greiðsla bóta og vextir.
11.1 Krefjast má greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga sem þörf var á til að meta vátryggingaratburðinn og ákveða fjárhæð bóta. Vátryggður á rétt á vöxtum af kröfu sinni skv. 50. gr. vátryggingarsamningalaga.
-
12. Eigin áhætta.
12.1 Af hverju tjóni ber vátryggður sjálfur 15% í eigin áhættu með því lágmarki og/eða hámarki sem getið er í skírteini eða iðgjaldskvittun.
-
13. Verðtrygging.
13.1 Vátryggingarfjárhæðir og aðrar fjárhæðir sem tilgreindar eru í vátryggingarskírteini eða iðgjaldskvittun til afmörkunar á ábyrgð félagsins breytast einu sinni á ári við upphaf vátryggingartímabils í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
-
14. Lög um vátryggingarsamninga.
14.1 Að öðru leyti en kveðið er á um í skilmálum þessum, vátryggingarskírteini eða öðrum gögnum, sem vátryggingarsamningurinn byggir á, gilda vátryggingarsamningalög um hann.
-
15. Meðferð ágreiningsmála og varnarþing.
15.1 Ágreiningi varðandi vátryggingarsamning og bótaskyldu félagsins að öðru leyti má skjóta til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Upplýsingar um nefndina og starfshætti hennar má fá hjá félaginu.
15.2 Þrátt fyrir úrræði skv. 1. mgr. er aðilum heimilt að leggja ágreininginn fyrir dómstóla. Slík mál, svo og önnur mál sem rísa út af vátryggingu þessari, skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Félaginu er þó einnig heimilt að höfða mál út af vátryggingunni á heimilisvarnarþingi vátyggingartaka.
15.3 Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Skilmálar þessir gilda frá 26. júní 2014.