Tónlistarskóli FÍH

Tónlistarskóli F.Í.H. er ólíkur öllum öðrum tónlistarskólum á Íslandi. Sérstaða skólans er meðal annars fólgin í því að hann er rekinn af stéttarfélagi tónlistarmanna, en okkur vitanlega á þetta fyrirkomulag sér ekki hliðstæðu annarsstaðar í heiminum. Margir kynnu að halda að stéttarfélagi væri meira í mun að halda samkeppni í lágmarki en að fjölga á þröngum markaði. Hér birtast hinsvegar háleitar hugsjónir stofnenda Tónlistarskóla F.Í.H. sem sáu að fjölgun vel menntaðra tónlistarmanna gæti aldrei leitt nema gott af sér, einkum fyrir tónlistarlíf þjóðarinnar. Tengsl skólans við stéttarfélag tónlistarmanna eru sterk.

Tónlistarskóli F.Í.H. er ekki einungis rekinn af félaginu, heldur eru flestir kennarar skólans virkir félagsmenn og önnum kafnir hljóðfæraleikarar, raunar margir af fremstu tónlistarmönnum landsins. Þessar staðreyndir móta skólastarfið og skólaandann drjúgt.

Tónlistarskóli F.Í.H. var fyrstur íslenskra tónlistarskóla til að hefja kennslu í jazz-tónlist árið 1980. Þessu frumkvæði hefur skólinn haldið með því að opna dyrnar fyrir rokktónlist á undan öðrum, byggja upp fullkomið hljóðver, hljóðritasafn og fleira. Eitt af helstu stefnumiðum skólans er að sinna sem flestum gerðum tónlistar, en sérstök áhersla er lögð á jazz, rokk og sígilda tónlist. Leitast er við að gera þessum tegundum tónlistar jafn hátt undir höfði, enda rímar sú hugsun við starfsemi Félags íslenskra hljómlistarmanna sem er deildaskipt á sama máta.

Skólinn leggur áherslu á hagnýta kennslu sem nýtist nemendum í sjálfstæðri tónlistariðkun. Auk kennslu í bóklegum greinum og hljóðfærakennslu, einkennist skólastarfið af mikilli samspils iðkun og líflegu tónleikahaldi. Hvergi er þó slegið af faglegum kröfum, enda er nám í Tónlistarskóla F.Í.H. matshæft í flesta framhaldsskóla og þykir sambærilegt við það sem boðið er upp á í þeim tónlistarskólum sem fremstir þykja í hefðbundnu tónlistarnámi.

Námsbrautir og deildir eru nokkrar og bjóða fáir tónlistarskólar upp á jafn mikið og fjölbreytt úrval bóklegra greina og Tónlistarskóli F.Í.H. gerir. En þó að hljóðfærakennarar séu hæfir og námsframboð gott, þá eru nemendurnir sjálfir alltaf mikilvægastir. Þeir og það umhverfi sem þeir skapa hverjum öðrum er nefnilega eitt sterkasta kennslutækið.

Reynslan hefur sýnt að í Tónlistarskóla F.Í.H. eru tónlistarmenn framtíðarinnar við nám, ekki síst á sviði jazz- og rokk-tónlistar. Reynslan hefur einnig sýnt að nemendur sem stunda námið vel og útskrifast frá Tónlistarskóla F.Í.H. eiga greiðan aðgang að tónlistarskólum erlendis.

Námið í F.Í.H. skólanum hefur reynst mörgum farsælt veganesti sem vel hefur dugað í stöðuprófum við erlenda háskóla. Það er einnig gleðiefni að skólinn okkar vekur athygli utan Íslands, en erlendir skiptinemar hafa talsvert sótt í skólann, en Tónlistarskóli FÍH er í nánu samstarfi við erlenda tónlistarháskóla. Þegar litið er yfir farinn veg hlýtur öllum að vera ljóst að skólinn hefur á starfstíma sínum haft mikil áhrif í íslensku tónlistarlífi, sérstaklega hvað varðar jazz- og rokk-tónlist.

Þó að áherslan hafi lengstum verið mun meiri á jazz og áhrifin hafi ljóslega verið mikil þar, eru flestir sammála um að starfsemi skólans hafi ekki haft minni áhrif á rokk- og popptónlist á Íslandi. Getustig íslenskra hljóðfæraleikara á báðum sviðum fer ört hækkandi og þar á Tónlistarskóli F.Í.H. drjúgan hlut að máli. Þá má heldur ekki vanmeta þátt skólans í almennri viðhorfsbreytingu gagnvart annarri tónlist en klassískri og námi á þeim sviðum. það er eðli góðra menntastofnana að vera í sífelldri endurskoðun.