Fyrstu tónleikar vetrarins í tónleikaröðinni Velkomin heim

Meðfylgjandi er fréttatilkynning um fyrstu tónleika vetrarins í tónleikaröðinni Velkomin heim, innan Sígildra sunnudaga í Hörpu.

Harpa í Hörpu

Sunnudaginn 10. nóvember kl. 16.00 kemur Sólveig Thoroddsen hörpuleikari fram í Hörpuhorni, á annarri hæð Hörpu. Efnisskráin samanstendur af einstaklega áhugaverðum, nýstárlegum og gullfallegum einleiksverkum fyrir hörpuna í öllum sínum stórkostlegu litbrigðum, með verkum eftir  Félix Godefroid, Marcel Tournier, Henriette Renié og Maju Palser.

Légende eða Þjóðsaga eftir Henriette Renié vísar til ljóðsins Les Elfes eftir franska nítjándu aldar skáldið Leconte de Lisle sem svipar til ljóðsins um Ólaf Liljurós. Verkið atomer eftir svissnesk-velska tónskáldið Möju Palser, var samið fyrir Sólveigu vorið 2013 og er því um frumflutning á Íslandi að ræða. Verk John Thomas, Morfa Rhuddlan, er tilbrigði við samnefnt þjóðlag frá heimalandi hans, Wales, verk Marcel Tournier er innblásið af náttúrumyndum en í etýðu sinni leikur Félix Godefroid sér að tjáningarríkum og viðkvæmum laglínum sem segja meira en mörg orð.

Sólveig Thoroddsen lærði fyrst á hörpu í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og lauk síðan  bakkalárnámi í klassískum hörpuleik við Royal Welsh College of Music & Drama. Þá stundaði hún nám í sögulegum flutningi á eldri gerðir hörpunnar við Hochschule für Künste í Bremen í Þýskalandi og lauk þaðan meistaragráðu árið 2016. Hún starfar nú í Bremen og nágrenni, þar sem hún leikur með kammerhópum, m.a. með Capella Santa Croce og Trio Sernisol.

Velkomin heim er röð innan Sígildra sunnudaga, skipulögð af  FÍT, klassískri deild FÍH, í samstarfi við FÍH. Aðgangur er ókeypis

Næstu tónleikar í röðinni eru jazz í Björtuloftum, 16. febrúar 2020, Anna Sóley Ásmundsdóttir ensemble

 

.