Upptökusamningur milli Félags hljómplötu-framleiðenda (FHF) og Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH)

SAMNINGUR milli Félags íslenskra hljómlistarmanna kt. 530169-5539, hér eftir nefnt FÍH, og Félags hljómplötuframleiðenda kt. 521179-0319, hér eftir nefnt FHF, um greiðslur og kjör hljómlistarmanna við upptöku tónflutnings, til fjöldaframleiðslu á hljómföngum til hagnýtingar í verslunarskyni fyrir framleiðanda eða þriðja aðila.

FÍH – FHF upptökusamningur 2022

 1. 1. gr. Lágmarksþóknun

  Hver hljómlistarmaður sem ráðinn er af hljómplötuframleiðanda fær annaðhvort

  a) endanlega þóknun samkvæmt tímaútkalli, sem tekur mið af lið 1.1 sem inniheldur álag vegna launatengdra gjalda, eða

  b) endanlega þóknun fyrir hvert lag og/eða verk sem tekur mið af lið 1.2 og sem innifelur álag vegna launatengdra gjalda.


  1.1. Þegar um tímaútkall er að ræða þar sem leikið er eftir forskrift upptökustjóra, útsetjara eða annarra, hvort heldur er í hljóðfærasveit eða ekki, gildir eftirfarandi fullnaðarþóknun, að meðtöldum launatengdum gjöldum skv. gr. 7.0 í þessum samningi:

  a. Eins tíma vinna í hljóðveri (hámarksupptökunýting 9 mínútur, hámark 2 lög) kr. 25.000

  b. Tveggja tíma vinna í hljóðveri (hámarksupptökunýting 15 mínútur) kr. 35.000

  c. Þriggja tíma vinna í hljóðveri (hámarksupptökunýting 25 mínútur) kr. 45.000

  d. Fjögurra tíma vinna í hljóðveri (hámarksupptökunýting 35 mínútur) kr. 55.000

  e. Fimm tíma vinna í hljóðveri (hámarksupptökunýting 50 mínútur)  kr. 70.000


  1.2 Þegar miðað er við einstök lög og/eða verk þar sem krafist er leiðandi hljóðfæraleiks í hljóðveri, hvort sem um rytmagrunna, yfirspil, sólóspil eða annað er að ræða, gildir eftirfarandi fullnaðarþóknun, að meðtöldum launatengdum gjöldum;

  Fjöldi laga Upphæð
  1 kr. 35.000
  2 kr. 60.000
  3 kr. 80.000
  4 kr. 100.000
  5 kr. 118.000
  6 kr. 136.000
  7 kr. 153.000
  8 kr. 170.000
  9 kr. 185.000
  10 kr. 200.000
  11 kr. 213.000
  12 kr. 226.000

   (Með ,,lagi” er átt við hljóðrit allt að 5 mínútum. Fari heildarlengd lags yfir þau tímamörk skal reikna hlutfallslega hækkun á lagið. Dæmi: lag er 6 mín., þá skal greiða þóknun fyrir lagið + 20%) 

 2. 2. gr. Yfirvinna

  Til þess að fullvinna lag og/eða verk sem byrjað er á og með samþykki flytjanda þegar unnið er skv. 1.1 gildir eftirfarandi:


  2.1 Í vinnutörn skal greiða kr. 30% álag fyrir hverjar byrjaðar 30 mínútur umfram þann heildartímafjölda (5 klst.) sem um getur í grein 1.1 á milli kl. 09:00 og 24:00


  2.2 Í vinnutörn skal greiða 50% álag fyrir hverjar byrjaðar 30 mínútur umfram þann hámarkstímafjölda (5 klst.) sem um getur í grein 1.1 á milli kl. 24:00 og 09:00 

 3. 3. gr. Álag vegna aukahljóðfæra/aukaradda

  a. Álag fyrir hvert aukahljóðfæri skal vera 10% á launalið innan sama hljóðfæraflokks. Dæmi: Rafmagnsgítar og kassagítar eða píanó og hljómborð o.s.frv.

  b. Ef hljómlistarmaður er látinn leika fleiri en eina sjálfstæða rödd skal honum greitt 5% álag fyrir hverja auka rödd.

  c. Álag vegna aukahljóðfæra og aukaradda verður þó ekki hærra en 50% ef um sama hljóðfæraflokk er að ræða. Sjá skilgreiningar á hljóðfæraflokkum á heimasíðu FÍH.

  d. Ef sami hljómlistarmaður leikur í einni upptökulotu á fleiri en eitt hljóðfæri, sem falla ekki undir sama hljóðfæraflokk, skal honum greitt að lágmarki 75% upptökuverðs per lag/verk fyrir hvert aukahljóðfæri.

 4. 4. gr. Ferðalög

  4.1 Fyrir flutning innan höfuðborgarsvæðisins á stórum og fyrirferðarmiklum hljóðfærum eins og kontrabassa, trommusettum o.s.frv. til og frá vinnustað kemur greiðsla samkvæmt fullgildri nótu.


  4.2 Fari hljóðritun fram utan höfuðborgarsvæðisins skal samið um launagreiðslur og kostnað sérstaklega samkvæmt opinberum viðmiðum um aksturskostnað.


 5. 5. gr. Afboðun

  Ef hljómlistarmaður er kvaddur til vinnu og hún fellur niður, skal greiða 50% samkvæmt lið 1.1.a. Greiðsla fellur niður ef um er að ræða algjörlega óviðráðanlegar orsakir eða afboðað hefur verið með minnsta kosti 24 stunda fyrirvara.

 6. 6. gr. Æfingar

  Fyrir æfingar er greitt samkvæmt Lausavinnutaxta FÍH. Sjá: https://www.fih.is/kjaramal-og-taxtar/almenn-lausavinna/

 7. 7. gr. Launatengd gjöld sem innifalin eru að fullu í launaliðum 1.1 og 1.2

  10,17 % orlof, 1% sjúkrasjóður, 0,25% orlofssjóður, 8% hljóðfæragjald.

  Skýring: Lífeyrissjóðsiðgjöld skiptast á eftirfarandi hátt:
  Framlag launþega 4% og mótframlag launagreiðenda 7%.
  Framlög í lífeyrissjóð fylgja almennri þróun og lögum um greiðslu í lífeyrissjóði.

 8. 8. gr. Upptökur milli 24:00 og 09:00

  Launaliðir þeir sem nefndir eru í ákvæðum hér að framan hækka um 50% þegar um er að ræða upptökur sem eiga sér stað á tímabilinu milli kl. 24:00 og 09:00. Þetta ákvæði gildir þó ekki óski hljóðfæraleikari eftir því að hefja störf kl. 24:00 eða síðar.

 9. 9. gr. Hljómsveitarstjórar

  Laun hljómsveitastjóra greiðast með 50% álagi á venjulegt kaup. Leggi hann til útsetningar, skal um það samið sérstaklega. Laun konsertmeistara í strengjasveit skulu greiðast með 50% álagi.

 10. 10. gr. Hvíldir

  Ef upptaka stendur í tvo tíma eða skemur, reiknast ekki hvíldir. Fari upptaka fram úr tveim tímum eiga hljómlistarmenn rétt á 10 mínútna hvíld eftir fyrstu tvo tímana og síðan 5 mínútna hvíld eftir hvern viðbættan hálftíma að höfðu samráði við stjórnanda upptöku.

 11. 11. gr. Upptökur af hljómleikum

  Hljómplötuframleiðandi má hljóðrita og gera myndupptöku á tónleikum listamanna, sem eru samningsbundnir honum (recording artist), með samþykki aðstoðarhljómlistarmanns (Session Musician). Komi til útgáfu á tónleikaupptöku, þar sem greitt hefur verið fyrir tónleikahald og að fengnu samþykki aukahljóðfæraleikara, getur hljómplötuframleiðandi keypt:

  a. fullan útgáfurétt á hljóðupptöku með með því að greiða 50% skv. neðangreindu

  b. full útgáfuréttindi, þar með talin hljóðrits- og myndupptökuréttindi, með því að greiða að fullu samkvæmt neðangreindu:

  1 – 5 mínútur kr. 20.000
  6 – 10 mínútur kr. 30.000
  11 – 20 mínútur kr. 40.000
  21 – 30 mínútur kr. 45.000
  31 – 40 mínútur kr. 50.000
  41 – 50 mínútur kr. 55.000

  Fyrir hverjar byrjaðar 10 mínútur umfram 50 mínútur greiðast 5.000 kr.

 12. 12. gr. Fullnaðarkaup réttinda (Buy-out)

  Hljóti hljómlistarmaður greiðslu fyrir tónlistarflutning í hljóðveri eða á tónleikum, sem er ekki lægri en fram kemur í þessum samningi, skal greiðslan teljast endanleg fyrir öll almenn og eðlileg not (sbr. gr. 13.0) útgefanda á hljóðupptökum í heild eða í hlutum, með eða án söngs. Þar með er talin útgáfa og endurútgáfa á hljóðupptökum og/eða myndupptökum á hvaða formi sem er, tónlistarmyndbandi og hvers kyns kynningarefni, nema að um annað sé samið.

  Þetta ákvæði er þó ekki afturvirkt og ber hljómlistarmanni að semja áður en hljóðrit/myndefni fer í sölu og/eða dreifingu.

  (Áréttun: Þetta ákvæði á ekki við um flytjendagjöld vegna opinbers flutnings)

 13. 13. gr. Skilgreining á eðlilegum notum hljóðrita

  Hljómplötuframleiðandi hefur rétt samkvæmt samningi þessum til að gefa út hljómföng, framleigja eða lána hljóðrit til notkunar í efnisveitu, hljóðvarpi, kvikmynd, sjónvarpi, auglýsingum eða/og öðrum miðlum, stafrænum eða hliðrænum, hvort sem um niðurhals-, spilunar-, streymis- eða samstillingarnot (Synchronization) er að ræða.

  Hljómplötuframleiðandi hefur ekki rétt til þess að framleigja eða lána hljóðrit til notkunar í leiksýningum eða á tónleikum nema með samþykki FÍH.

 14. 14. gr. Undanþága

  Undanþágu má veita frá samningi þessum, ef um stórverk er að ræða, þó aðeins að fengnu samþykki viðkomandi hljómlistarmanna og stjórnar FÍH. Skulu óskir og svör þar að lútandi fara fram skriflega.

 15. 15. gr. Tryggingar

  Að öðru leyti fer sem hér segir í samningi BHM og SA um slysatryggingar og um tjón á persónulegum munum o.fl.

 16. 16. gr. Stærri hópar

  Heildarsamningur milli FHF og FÍH kveður á um lágmarkskjör til handa meðlimum FÍH. Heimilt er að semja sérstaklega um greiðslur til stærri hópa. (Miðað er við að flytjendur séu 17 eða fleiri í slíku tilviki).

 17. 17. gr. Skráning hljóðrita

  Það er á ábyrgð útgefanda að skrá allar upplýsingar um þátttakendur í tónlistarflutningi á öllum hljóðritunum í hljóðveri auk annarrra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að fá ISRC kóða fyrir viðkomandi útgáfur. Nálgast má ISRC kóða á heimasíðunni www.hljodrit.is.

  Aðilar samningsins eru sammála um að hvetja tónlistarflytjendur til að sjá til að fylgjast með því að rétt fullnaðarskráning á hljóðritum eigi sér stað á hljodrit.is.

 18. 18. gr. Gildistími

  Samningur þessi gildir til eins árs frá undirskriftardegi og framlengist um 1 ár í senn sé honum ekki sagt upp skriflega af öðrum eða báðum samningsaðilum með 3ja mánaða fyrirvara.

 19. Undirritun

  Reykjavík 31.10. 2022

  Með fyrirvara um niðurstöðu atkvæðagreiðslu/samþykki félagsfundar samningsaðila.

 20. Yfirlýsing

  Aðilar eru sammála um að virða gagnkvæm réttindi samkvæmt samningi þessum í hvívetna. Þeir eru einnig sammála um að samningur sá sem undirritaður er í dag sé gerður með hagsmuni samningsaðila að leiðarljósi.